Fara í efni
Yellow Blue Green
Mynd/Bjarki Sigursveinsson

Stóra Mörk hlýtur landbúnaðarverðlaunin 2024

Aðalbjörg Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson að Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum hljóta landbúnaðarverðlaunin fyrir framúrskarandi árangur við innleiðingu loftslagsvænna búskaparhátta.

Það var Katrín Jakobsdóttir, starfandi matvælaráðherra sem afhenti þeim viðurkenninguna við hátíðlega athöfn við setningu Búnaðarþings. 

Í Stóru-Mörk er búið með nautgripi, bæði til mjólkur- og kjötframleiðslu en einnig með sauðfé og enn fremur er þar rekin ferðaþjónusta. Aðalbjörg og Eyvindur hafa verið þátttakendur í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði frá árinu 2020 og hafa á þeim tíma náð miklum árangri í búrekstrinum.

Stóra-Mörk er landnámsjörð sem getið erum í Njálssögu og er nyrsti bær Eyjafjalla. Stóra-Mörk er í dag þríbýli og hefur sama ætt stundað þar hefðbundinn blandaðan búskap frá árinu 1865 til dagsins í dag.

Í Stóru-Mörk voru mestar meðalafurðir í mjólkurframleiðslu eftir árskú í fyrra, en á þeim fjórum árum sem Aðalbjörg og Eyvindur hafa verið þátttakendur í verkefninu hefur orðið um 20% aukning í afurðum á árskú, en rekstrargögn búsins sýna að þrátt fyrir svona hátt afurðastig er kjarnfóðurkostnaður undir meðaltali á landinu. Einnig hefur framlegðarstig búsins hækkað á þessum árum og er mun hærra en landsmeðaltal.

Árlega setja þau sér skriflega aðgerðaáætlun þar sem skilgreint er hvar áherslur eiga að vera í búrekstrinum. Seinustu ár hafa þau lagt mikla áherslu á túnrækt og fóðuröflun. Þau hafa markvisst minnkað notkun tilbúins áburðar án þess að skerða magn uppskeru og fóðurgæði, þau sá niturbindandi jurtum í allar nýræktir á búinu og hafa minnkað olíunotkun. Þau eru vel meðvituð um að kýr eru kröfuharðar á gott fóður og fylgjast því vel með gæðum og lystugleika gróffóðursins.

Í Stóru-Mörk hefur einnig verið unnið öflugt landgræðslustarf og hlutu Aðalbjörg og Eyvindur landgræðsluverðlaunin árið 2021, ásamt foreldrum Aðalbjargar Rögnu Aðalbjörnsdóttur og Ásgeiri Árnasyni. Stóra-Mörk er eitt fárra búa sem hefur tekið þátt í verkefninu "Bændur græða landið" frá upphafi og í dag vinna þau að því að endurheimta birkiskóg í Merkurnesi.

Aðalbjörg og Eyvindur hafa nýtt sér verkfæri Loftslagsvæns landbúnaðar vel í sínum búrekstri, þau hafa ekki einungis dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og aukið kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri heldur hafa þau einnig verið dugleg að miðla þekkingu sinni til annarra bænda með jafningjafræðslu, en í sumar tóku þau á móti öðrum þátttakendum í Loftslagsvænum landbúnaði þar sem þau sýndu þann ávinning sem þau hafa náð.

Verkefnahópur Loftslagsvæns landbúnaðar óskar þeim innilega til hamingju með verðlaunin.