Mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni
Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða allra vistkerfa og nauðsynleg öllu lífi á jörðinni. Fjölbreytni í lífríki viðheldur heilbrigðum vistkerfum, virkni þeirra og hæfni til að þjóna tilgangi sínum. Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni eru vistkerfi skilgreind sem „kvik tengsl samfélaga jurta, dýra og örvera og hins ólífræna umhverfis þeirra sem starfrænnar heildar“. Vistkerfi eru þ.a.l. starfandi heild sem eru grunnur að tilveru alls lífríkis.
Virkni vistkerfa getur verið á mismunandi skölum og eftir áherslum hverju sinni en starfsemi þeirra og geta fer eftir líffræðilegri fjölbreytni en ekki einungis fjölda tegunda. Með hnignun líffræðilegrar fjölbreytni fækkar valkostum fyrir lífverur sem skerðir möguleika þeirra til að breytast, þróast og lagast að breyttum aðstæðum. Líffræðilegur fjölbreytileiki hefur þannig bein áhrif á starfsemi og virkni vistkerfa.
-
Með örðum orðum er líffræðileg fjölbreytni lykill að tilveru allra lífvera og getu vistkerfa til að þjóna tilgangi sínum og hæfni þeirra til að viðhalda viðbragðsgetu og seiglu.