Fara í efni
Yellow Blue Green
 

Landbúnaður og loftslagsmál

Landbúnaður stendur frammi fyrir flókinni og einstakri áskorun þegar kemur að loftslagsbreytingum. Hann er mjög viðkvæmur þegar kemur að veðurfarsbreytingum enda er atvinnugreinin háð nýtingu náttúrunnar, veðri og veðrakerfum. Áhrifa loftslagsbreytinga eins og hærra hitastigs, mikillar úrkomu, meindýra og öfgafulls veðurs er víða farið að gæta í landbúnaðarkerfum, og mun gæta í fleiri löndum eftir því sem loftslagsbreytingar ágerast.

Bændur gegna því ábyrgðarhlutverki að framleiða heilnæm matvæli en þurfa jafnframt að vera frumkvöðlar í því að innleiða sjálfbærar aðferðir sem hjálpa við að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Tækifærin eru fjölmörg m.a. í aðferðum sem auka framleiðni búa, tæknibreytingum og náttúrumiðuðum lausnum.

Yellow Blue Green

Hvað eru loftlagsbreytingar?

Loftslagsbreytingar eru langtímabreytingar á veðramynstrum jarðarinnar. Þær fela m.a. í sér breytingar á hitastigi, úrkomu og vindakerfum. Þrátt fyrir að eldgos og breytileikar í virkni sólar geti stuðlað að loftslagssveiflum, þá er með loftslagsbreytingum átt við breytingar sem eru af mannavöldum.

Loftslagsvísindamenn hafa sýnt fram á að athafnir manna hafa valdið nánast allri hitun jarðarinnar seinustu 200 árin. Meðalhitastig yfirborðs jarðarinnar er um 1,1°C hærra en fyrir upphaf iðnbyltingarinnar. Seinasti áratugur (2011-2020) var sá hlýjasti sem mælst hefur og hver af síðustu fjórum áratugum hefur verið hlýrri en nokkur áratugur þar á undan.

Loftslagsbreytingar þýða ekki einungis hækkun hitastigs, því þar sem jörðin er kerfi þar sem allt er tengt, hafa breytingar á einu sviði áhrif á önnur svið. Afleiðingar loftslagsbreytinga eru m.a. þurrkar, vatnsskortur, hækkað sjávarborð, flóð, bráðnandi heimskautaís, stormar og minnkun á líffræðilegum fjölbreytileika.

 

 

Landbúnaður

Landbúnaður á þátt í hnattrænni hlýnun af mannavöldum. Það að draga úr losun frá landbúnaði getur haft mikilvæg áhrif í að draga úr loftslagsbreytingum.

Fjölmargar gróðurhúsalofttegundir valda loftslagsbreytingum af mannavöldum en þær þrjár áhrifamestu eru koltvíoxíð (CO2), metan (CH4) og nituroxíð/hláturgas (N2O). Í landbúnaði og við matvælaframleiðslu myndast allar þessar gróðurhúsalofttegundir, en þær tvær síðarnefndu eru þar ríkjandi, en um helmingur af öllu metani sem verður til af mannavöldum er frá landbúnaði og um þriðjungur af nituroxíðinu. 

 

 


Umhverfisstefna landbúnaðarins

 

Á Búnaðarþingi 2020 var samþykkt umhverfisstefna landbúnaðarins.
Í henni voru sett fram þrjú markmið.

I. Markmið: Kolefnishlutleysi landbúnaðar 2030:
Stefnt skal að kolefnishlutleysi landbúnaðar (án landnýtingar) árið 2030.Stefnt skal að kolefnishlutleysi landbúnaðar (án landnýtingar) árið 2030. Þessu markmiði skal náð með samdrætti í losun og aukinni kolefnsbidingu.

II. Markmið: Sjálfbær nýting landbúnaðarlands 2030.
Stefnt skal að því að öll nýting landbúnaðarlands (beitarlands) verði sjálfbær árið 2030.

III. Markmið: Endurheimt vistkerfa 2020-2030.
Sett verði á laggirnar átaksverkefni til endurheimtar vistkerfa á lögbýlum.

-

Nánar: Umhverfisstefna landbúnaðarins 2020-2030

 

 

Parísarsáttmálinn & kolefnishlutleysi

Með kolefnishlutleysi er vísað til þess að jafnvægi sé á milli hraða losunar og bindingar af mannavöldum og nettólosun því engin. Kolefnishlutleysi er mikilvægur þáttur í Parísarsáttmálanum frá árinu 2015. Markmið hans er að halda hnattrænni hlýnun vel innan við 2°C miðað við upphaf iðnbyltingarinnar en leitast á sama tíma við að takmarka hana við 1,5°C þar sem það myndi draga verulega úr áhættu og afleiðingum loftslagsbreytinga. 

 

Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði á heimsvísu

Landbúnaður er stór uppspretta gróðurhúsalofttegunda, bæði beint með framleiðslu afurða og óbeint vegna breytinga á landi til landbúnaðarnotkunar. Á heimsvísu eru landbúnaður, skógrækt og önnur landnotkun ábyrg fyrir 23% af losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, eða 12 Gt CO2-ígilda á ári. Stærstur hluti þessarar losunar er vegna losunar á metani (CH4) frá jórturdýrum (4 Gt Co2-ígilda á ári), nituroxíðs (N2O) sem myndast vegna meðhöndlunar tilbúins áburðar (2,2 Gt CO2 ígilda á ári) eða vegna breytingar á landnotkun og eyðingar skóga (5,2 Gt CO2-íg á ári)

 

Losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði

Á Íslandi var losun frá landbúnaði árið 2022 um 22% af losuninni sem fellur undir beina ábyrgð Íslands eða 605 þúsund tonn CO2-ígilda. Meira en helmingur losunarinnar kemur vegna sauðfjár- og nautgriparæktar, 56%, en áburðarnotkun svarar fyrir um 22%, framræst ræktarland 12%, ræktun hrossa um 6% og aðrar uppsprettur losa um 4%.

Losun frá vinnuvélum sem notaðar eru í landbúnaði er ekki talin með í þessum flokki heldur fellur undir losun frá orkugeiranum.

Frá árinu 1990 hefur orðið um 12% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði sem má að miklu leyti rekja til fækkunar sauðfjár. Árið 2022 var losun um 2,5% minni en árið 2021, en það er að miklu leyti rakið til fækkunar sauðfjár, en á á þessu tímabili fækkaði því um rúmlega 17.000 eða um 4,4%.

-

Nánar: Umhverfisstofnun - Losun frá landbúnaði