Í reglugerð um gæðastýringu í sauðfjárrækt er sjálfbær landnýting skilgreind sem „Nýting sem ekki gengur á auðlindir lands, s.s. jarðveg, gróður og vatn og tryggir um leið viðgang og virkni vistkerfis til framtíðar.“ Í lögum um landgræðslu nr. 511/2018 segir: „Nýting lands skal vera sjálfbær þannig að ekki sé gengið á auðlindir þess og þær endurheimtar eins og unnt er, og jafnframt að viðgangur og virkni vistkerfa haldist”. Sú áhersla að viðgangur og virkni vistkerfis skuli tryggður endurspeglar skilgreiningu FAO og undirstrikar að landnýting getur ekki talist sjálfbær nema landið veiti þær vistkerfisþjónustur sem eðlilegt er að það veiti, sbr. vistgetu þess.
Sjálfbær landnýting er því landnýting þar sem starfsemi og bygging vistkerfa viðhelst eða eflist og vistkerfið er jafnframt í ásættanlegu ástandi. Þetta er mikilvægt, þar sem stór hluti landsvistkerfa landsins hefur þegar orðið fyrir verulegri hnignun og mun haldast í því ástandi nema breyting verði á nýtingu eða gripið til endurheimtaraðgerða.