Fara í efni
Yellow Blue Green

Skilgreiningar

Ýmsar alþjóðlegar skilgreiningar eru til á sjálfbærri landnýtingu. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (FAO) skilgreinir sjálfbæra landnýtingu eftirfarandi: Nýting auðlinda lands, þ.m.t. jarðvegs, vatns, dýra og plantna til framleiðslu hráefna til að mæta þörfum mannkyns, þar sem geta og virkni auðlindanna til lengri tíma, er jafnframt tryggð.

Yellow Blue Green

Í reglugerð um gæðastýringu í sauðfjárrækt er sjálfbær landnýting skilgreind sem „Nýting sem ekki gengur á auðlindir lands, s.s. jarðveg, gróður og vatn og tryggir um leið viðgang og virkni vistkerfis til framtíðar.“ Í lögum um landgræðslu nr. 511/2018 segir: „Nýting lands skal vera sjálfbær þannig að ekki sé gengið á auðlindir þess og þær endurheimtar eins og unnt er, og jafnframt að viðgangur og virkni vistkerfa haldist”. Sú áhersla að viðgangur og virkni vistkerfis skuli tryggður endurspeglar skilgreiningu FAO og undirstrikar að landnýting getur ekki talist sjálfbær nema landið veiti þær vistkerfisþjónustur sem eðlilegt er að það veiti, sbr. vistgetu þess.

Sjálfbær landnýting er því landnýting þar sem starfsemi og bygging vistkerfa viðhelst eða eflist og vistkerfið er jafnframt í ásættanlegu ástandi. Þetta er mikilvægt, þar sem stór hluti landsvistkerfa landsins hefur þegar orðið fyrir verulegri hnignun og mun haldast í því ástandi nema breyting verði á nýtingu eða gripið til endurheimtaraðgerða.

 

Ástand vistkerfa

Ástand vistkerfa ræður því hvað þarf að gera til að ná þessum sjálfbærnimarkmiðum. Heilbrigð vistkerfi hafa mikið þanþol og mikinn viðnámsþrótt, þ.e. þau þola yfirleitt talsverða nýtingu og eru ekki mjög viðkvæm fyrir áföllum og raski. Eftir því sem vistkerfum hnignar verður viðnámsþróttur þeirra minni og þau eru því viðkvæmari fyrir nýtingu og raski. Vegna þessa á landnýting bæði að taka tillit til ástands vistkerfa og hvernig þau eru að breytast.

Landið sjálft gefur vísbendingar um ástand þess, jarðvegurinn, gróðurþekja og fjölbreytileiki gróðurs, plöntutegundir, hæð og þróttur plantna, uppskerumagn, framleiðslugeta og fjölgunargeta plantna, stöðugleiki jarðvegs t.d. frostlyfting og merki um jarðvegsflutning.

 

Einkenni sem benda til
framvindu og bata lands:

 • Plöntur nema land á ógrónum svæðum
 • Gróðurþekja og uppskera eykst
 • Land grær upp
 • Rofdílar minnka og rofabörð falla saman
 • Eftirsóttum beitarplöntum fjölgar

 

Þegar hnignun á sér stað
og gróður er í afturför má sjá að:

 • Uppskera minnkar
 • Gróðurþekja minnkar
 • Rætur rýrna
 • Eyður myndast í sverði og rofdílar myndast
 • Rofabörð myndast
 • Eftirsóttum beitarplöntum fækkar
 • Búfé fer að bíta lélegri beitarplöntur

 

-

Best er að fylgjast með landi yfir ákveðinn tíma til að meta þetta.

Sjálfbær landnýting er forsenda fyrir vernd, endurheimt og uppbyggingu vistkerfa og mikilvæg fyrir líffræðilega fjölbreytni, viðnámsþrótt og þanþol vistkerfa.

Sjálfbær landnýting þarf að taka mið af ástandi lands og nýting er ekki sjálfbær sé vistkerfið í rúst. Nýting þarf að fara saman með vernd, viðhaldi og uppbyggingu vistkerfisins, verndun líffræðilegrar fjölbreytni, vatnsmiðlun og því að byggja upp kolefni í gróðri og jarðvegi og lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Vakta þarf ástand gróðurlendis, jarðvegs og landnýtingu.

 

Tenging við loftslag


Sjálfbær landnýting er einnig beintengd loftlagsmarkmiðum Íslands. Jarðvegur er næststærsta kolefnisforðabúr jarðarinnar og ef hann opnast og eyðist losna gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Vernd og endurheimt vistkerfa eru þannig eitt af meginmarkmiðum aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum á Íslandi.

Sjálfbær landnýting á ekki bara við um beitarnýtingu heldur alla nýtingu lands s.s. akuryrkju, framkvæmdir og umferð fólks um landið.