Fara í efni
Yellow Blue Green

Opnun vefsíðu Loftslagsvæns landbúnaðar

Á búnaðarþingi 2024 opnaði Katrín Jakobsdóttir, settur matvælaráðherra nýja heimasíðu Loftslagsvæns landbúnaðar við hátíðlega athöfn.

Verkefnið hefur verið starfrækt í rúmlega fjögur ár og á þeirri vegferð hefur orðið til mikil þekking á loftslagsmálum landbúnaðarins, bæði hjá starfsmönnum verkefnisins en ekki síður hjá þeim bændum sem taka þátt.

Á nýrri vefsíðu Loftslagsvæns landbúnaður er nú í fyrsta skipti til vettvangur fyrir íslenska bændur til þess nálgast fræðsluefni um loftslagsvæna búskaparhætti og kynna sér aðgerðir og sjá raunverulegan árangur þeirra bænda sem eru í verkefninu.

Markmiðið með vefsíðunni er að gera umfjöllun um loftslagsmál landbúnaðarins aðgengilega bæði fyrir bændur og almenning. Hönnun síðunnar gerir það auðvelt að tileinka sér efni henni og fallega myndskreytt fræðsluefni gerir efnið sjónrænt aðlaðandi og nær athygli lesenda.

Á vefsíðunni er Íslandskort þar sem hvert þátttökubú segir sína sögu. Þar sést hvað landbúnaður er fjölbreyttur og að allir geta nýtt aðferðir Loftslagsvæns landbúnaðar í sínum búrekstri. Það er mikilvægt að deila þeirri þekkingu sem hefur orðið til, loftslagsmálin eru áskorun sem bændur þurfa að takast á við í sameiningu. Til þess þurfa þeir öflugan vettvang til þess að geta fræðst um loftslagsmálin og geta gripið til aðgerða. Loftslagsvænn landbúnaður hefur sýnt árangur sem flestir bændur geta vonandi tileinkað sér.