Fara í efni
Yellow Blue Green
Prufa
Mynd/Bjarki Sigursveinsson

Heimsókn í Hólsgerði í Eyjafirði 2023

Hólsgerði í Eyjafirði

Árlega hittast þátttakendur og leiðbeinendur í Loftslagsvænum landbúnaði á einhverju þátttökubúanna. Þetta er mikilvægur þáttur í verkefninu þar sem bændur læra hver af öðrum og fá fræðslu frá ráðgjöfum um þætti sem geta haft áhrif á búreksturinn. Í sumar buðu Sigríður Bjarnadóttir og Brynjar Skúlason þátttakendum í heimsókn í Hólsgerði í Eyjafirði en einnig var Stóra-Mörk undir Eyjafjöllum heimsótt. Þátttakendur velja á hvorn staðinn þeir mæta, eftir því sem hentar betur hvað varðar staðsetningu og tímasetningu.

Í Hólsgerði er rekið sauðfjárbú og þar er þess utan mjög mikil áhersla lögð á skógrækt, þá sérstaklega nytjaskógrækt en einnig eru skjólbelti mikið notuð ti þess að skýla búfé og ræktarlandi. Frá því að Sigríður og Brynjar fluttu í Hólsgerði hefur fjölskyldan verið samhent í að rækta skóg, en skógræktarsvæðið var að hluta frekar rýrt og illa farið vegna ofbeitar en er nú skógi vaxið. Þau hafa verið þátttakendur í Loftslagsvænum landbúnaði frá árinu 2020. Þau hafa m.a. sett sér markmið um bætta nýtingu á búfjáráburði, ræktun smára í túnum og fara sparlega með olíu ásamt því að auka afurðir með góðri frjósemi og beit. 

Í Eyjafirði byrjarði dagurinn með heimsókn í jarðgerðarstöðina Moltu þar sem Kristján Ólafsson framkvæmdastjóri og Hermann Ingi Gunnarsson sem hefur mikla reynslu og þekkingu af notkun moltu í túnrækt sýndu hópnum framreiðsluferlið og ræddu um notkun moltunnar.Þegar komið var í Hólsgerði tóku Brynjar og Sigríður á móti hópnum og buðu upp á ketilkaffi á meðan þau sögðu frá bænum, sögu hans, rekstri og umhverfis- og loftslagsaðgerðum. Brynjar er menntaður skógfræðingur og hefur mikla þekkingu á samt reynslu af skógrækt, sem hann miðlaði til þátttakanda. Hann kynnti allt ferli skógræktar, s.s. gróðursetningu, áburðargjöf, umhirðu og nýtingu skógarafurða. Þau hjónin eru m.a. að undirbúa að klæða íbúðarhús sitt með veggskífum úr trjám sem þau hafa ræktað.