Heimsókn í Keldudal í Hegranesi í Skagafirði 2024
Á góðviðrisdegi í júní komu 47 manns saman í Keldudal í Hegranesi í Skagafirði. Þar er búið með 70 mjólkurkýr og um 100 aðra nautgripi. Nautkálfar undan mjólkurkúm eru aldir til slátrunar. Á búinu eru 80 kindur, 14 geitur og nokkur hross, íslenskir fjárhundar og hænur til heimilis. Einnig er ferðaþjónusta þar sem leigð eru út tvö hús.
Dagurinn byrjaði á því að hópnum var boðið í heimsókn í Mjólkursamlagið á Sauðárkróki. Þar var góð kynning á framleiðsluferlum mjólkurafurða og mikið rætt um fullnýtingu afurða og lágmörkun lífræns úrgangs, sem lögð er mikil áhersla á í samlaginu.
Þegar komið var í Keldudal kynntu Þórarinn og Guðrún sögu og starfsemi á bænum. Keldudalur er einn áhugaverðasti fundarstaður fornleifa á síðari áratugum á Íslandi en árið 2002 þegar verið var að grafa fyrir ferðaþjónustuhúsi rákust þau hjónin á mannabein. Í ljós kom að þarna var forn kirkjugarður sem enginn hafði vitað um, enda engar heimildir til um kirkju í Keldudal. Garðurinn reyndist vera frá fyrstu öldum kristni hér á landi og fyrstu grafirnar voru teknar í kringum árið 1000 en garðurinn var aflagður á 12. öld. Þar fundust 54 heillegar grafir og beinin höfðu varðveist afar vel. Talið er að samsetning jarðvegarins hafi stuðlað að því að varðveislan var svona góð. Undir garðinum fundust minjar af skála frá landnámsöld og skammt frá kumlateigur úr heiðni. Þar var m.a. bein úr háfættum mjóhundi sem hefur ekki áður fundist á íslandi, en við framhaldsuppgröft fundust fleiri leifar fornra mannvirkja t.d. fjós frá landnámsöld fyrir 18-20 gripi.
Eftir kynninguna og góðan hádegisverð var gestunum skipt í tvo hópa þar sem skipst var á að fara í skoðunarferð um fjósið sem Guðrún leiddi og í kennslu í jarðrækt hjá Þórarni sem er jarðræktarfræðingur og ráðunaut RML.
Í Keldudal er nýtt og glæsilegt 900 m2 fjós sem tekið var í notkun í nóvember 2022. Þar var vandað til verka og mikil áhersla lögð á að rafvæða það. Í fjósinu er einn mjaltaþjónn og fóðurkerfið alfarið drifið með rafmagni. Þau eru með „kanalakerfi“ í hauggeymslunni, en skítnum er dælt upp í haugtank með rafmagnsdælu og í honum er hrært með rafmagnshræru.
Þórarinn lagði mikla áherslu á sýrustigsmælingar í ræktunarjarðvegi, en bændur geta nýtt einfalda sýrustigsmæla heima á búum sínum og haft sýrustigið til leiðbeiningar við kölkun og áburðargjöf á tún. Æskilegt sýrustig ræktunarjarðvegs er á bilinu 6-7 til að fá sem besta nýtingu áburðarefna. Farið var yfir mismunandi jarðvegsgerðir í gróðurhnausum, þar sem skoðuð voru nýleg smáratún og gömul tún með snarrót. Mikill loftslagsávinningur er af ræktun smára í túnum þar sem hann minnkar þörf fyrir fyrir tilbúinn áburð og gefur prótín- og steinefnaríkt fóður.
Rætt var um niðurlagningabúnað á mykju, m.a. muninn á niðurlagningu með slöngubúnaði, með naflastreng og niðurlagningu með skóm sem greiðir gróður í sundur þannig að mykjan fer nær sverðinum. Þórarinn lagði mikla á herslu á að smyrja moldverpin á plóginum vel þegar hann er ekki í notkun svo að þau ryðgi ekki og þannig er hægt að tryggja sem minnst viðnám við jarðveginum og þar með hægt að nota eins litla olíu og kostur er við plægingu.
Í gönguferð um bújörðina var skoðaður skjóllundur sem nýttist einstaklega vel þegar aftakaveður gekk yfir landið í byrjun sumars, en þar gat sauðfé leitað skjóls. Skógræktarráðgjafi fræddi þátttakendur um ræktun skjóllunda og beitarskógrækt og hvernig best er að hefja slíka ræktun. Eining var gengið upp á Nafir þar sem dáðst var að stórkostlegu útsýni yfir Hegranesið og Skagafjörð.
Dagurinn endaði á skemmtilegri grillveislu í félagsheimilinu.