Fara í efni
Yellow Blue Green
Þátttakendur og leiðbeinendur í heimsókn á Tyrfingsstöðum 2024/ Mynd: Borgar Páll Bragason

Heimsókn á Tyrfingsstaði í Ásahreppi 2024

Á Tyrfingsstöðum komu saman 38 manns í blíðskaparveðri. Dagurinn byrjaði á því að Hulda og Tyrfingur sögðu frá búrekstrinum, sögu bæjarins og þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir í sínum rekstri. Þau hafa verið brautryðjendur í auðgandi landbúnaði (e. regnerative agriculture) þar sem lögð er áhersla á að endurheimta heilbirgði jarðvegs, efla líffræðilegan fjölbreytileika og bæta viðnám vistkerfa með sjálfbærni að leiðarljósi. Loftslagsvænn landbúnaður og auðgandi landbúnaður eiga mikla samleið í því að draga úr umhverfisáhrifum, efla viðnám vistkerfisins og stuðla að sjálfbærum búskaparháttum. Báðar aðferðirnar leggja áherslu á að bæta jarðvegsheilbrigði, auka líffræðilegan fjölbreytileika og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem og auka bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri.

Byrjað var á að fræðast um lífkolagerð og sýndi Tyrfingur fyrstu skrefin í henni. Lífkol eru viðarkol sem eru búin til með því að hita lífmassa í súrefnislausu umhverfi. Á Tyrfingsstöðum er þeim blandað saman við undirburðinn en það minnkar lykt þar sem að kolin draga í sig köfnunarefni og flest lyktarmyndandi efni. Þau eru einnig notuð sem jarðvegsbætir en þau taka þátt í að bæta jarðvegslífið í jarðveginum sem skapar rými fyrir jarðvegsbakteríur sem auka frjósemi jarðvegsins. Einnig hafa þau gefið lömbum með skitu lífkolabætta AB-mjólk með góðum árangri.

Eftir lífkolagerðina var viðstöddum skipt í tvo hópa þar sem skipst var á að fara í skoðunarferð um Uppspuna og fá kennslu í sýrustigsmælingum. Ráðunautur RML, sá um sýrustigmælingakennsluna en þar var farið yfir hvernig hátta skal sýrustigsmælingum á jarðvegi og hvernig hagnýta megi þær upplýsingar við kölkun túna og áburðargjöf.

Á Tyrfingsstöðum er rekið fyrirtækið Uppspuni sem er lítil verksmiðja sem vinnur garn úr ull. Fræðst var um vinnsluferilinn og mismunandi gerðir af garni. Ullin sem notuð er í framleiðslunni er frá Tyrfingsstöðum en einnig geta viðskiptavinir komið með sína ull og fengið hana fullunna.

Hjónin hafa verið öflug í moltugerð og gera bæði hefðbundna moltu og ormamoltu. Á stóran skjá var varpað úr smásjá þar sem greina mátti smádýra- og örverulíf úr ormamoltu. Ormamolta er unnin þannig að ormar, í samstarfi við örverur, sjá um niðurbrot hins lífræna hráefnis.

Hjónin hafa einnig verið brautryðjendur í beitarstýringu. Þau kynntu hvernig áhrif það hefur á gróður- og jarðvegslíf að vera með virka beitarstýringu, en hún örvar m.a. vöxt gróðurs. Ávinningurinn er fjárhagslegur þar sem að hægt er að vera með fleiri nautgripi á hektara og þörf á tilbúnum áburði verður mjög lítill. Gripirnir fá til umráða 300-400 fermetra í einu sem þeir hreinsa upp á einum til tveimur tímum og leggjast svo niður til þess að jórtra. Síðan skíta þær því sem þær hafa verið að éta og þeim er hleypt í næsta hólf. Skíturinn dreifist þannig jafnt um túnin og gripirnir þurfa aldrei að éta í kringum skítinn úr sér og því engin þörf á ormalyfjum. Í skoðunarferð um bújörðina sást greinilega hver ávinningurinn af beitarstýringunni er á frjósemi jarðvegsins.

Skoðað var nýtt flokkunarhlið fyrir nautgripi sem er byggt eftir hugmyndafræði Temple Grandin, þar sem vellíðan gripanna er í fyrirrúmi. Það kom á óvart hversu einfalt það er í notkun og gripirnir ganga greiðlega í gegnum það.

Á Tyrfingsstöðum hafa Hulda og Tyrfingur einnig farið nýstárlegar leiðir við hænsnahald en hænsnin eru höfð í færanlegum búrum þannig að hugað er að heilbirgði túnanna. Einnig hefur skemmtilegri aðstöðu verið komið fyrir hænsni í gömlum Hiace bíl sem hægt er að keyra um landareignina og þar með auka heilbrigði jarðvegsins.  Svín eru á bænum í færanlegum kerfum. Skoðunarferðin endað á því að skoða grænmetisræktunina sem er í litlu gróðurhúsi og hraukbeðum við heimili þeirra. Þar er ræktað grænmeti og kartöflurnar eru settar beint á jörðina ofna á moltu og svo eru þær þaktar með heyi. 

Í lok dags var svo efnt til grillveislu í félagsheimilinu Félagslundi