Fara í efni
Yellow Blue Green

Tyrfingsstaðir

Tyrfingur Sveinsson & Hulda Brynjólfsdóttir
Sauðfjárrækt Nautgriparækt

Loftlagsvænn landbúnaður

þátttökubú í loftlagsvænum landbúnaði

Tyrfingsstaðir

Hvað hefur loftslagsvænn landbúnaður gert fyrir okkur?

Tyrfingsstaðir í Ásahreppi

Við hófum búskap árið 2010 þegar við tókum við af foreldrum Tyrfings. Þá voru 50 fjár og 3 holdakýr á búinu og allnokkuð af íslenskum nautkálfum í eldi. Við ákváðum að fjölga fénu í 300 og kúnum í 30 og gerðum það á örfáum árum.

Árið 2016 þegar markaðsverð á lambakjöti hrundi ákváðum við að drýgja tekjurnar með öðrum leiðum og settum á fót smáspunaverksmiðju sem við köllum Uppspuna. Þar vinnum við ull af öllu okkar fé og einnig fyrir aðra aðila sem vilja fá ullina sína unna í band.

Árið 2019 byrjuðum við að stunda auðgandi landbúnað (e. Regenerative agriculture) og erum með kýr og kindur í beitarstýringum og fylgjum þeim eftir með hænsnfuglum. Árið 2021 komu svo geitur inn á búið. Afurðir af þessum dýrum reynum við að selja beint frá býli eftir bestu getu.

Auðgandi landbúnaður (e. Regenerative Agriculture) er stundaður út um allan heim og er talinn til jákvæðra mótvægisaðgerða í loftslagsmálum. Fyrst og fremst snýst þessi aðferð um að bæta jarðveginn – sem er undirstaða alls lífs – og er það gert með markvissum fyrirfram skipulögðum beitarstýringum og friðun beitilands, en einnig með því að nota ekki jarðvinnslutæki eða tilbúin eiturefni við landbúnað, heldur náttúrulegar aðferðir og er mikilvægt að jarðvegur sé aldrei óvarinn fyrir veðri og vindum. Með þessum aðferðum er talið að megi byggja upp heilbrigðan jarðveg. Heilbrigður jarðvegur elur af sér heilbrigðar jurtir sem stuðlar að heilbrigði dýra og á heilbrigður jarðvegur að búa sjálfur yfir öllum vörnum gegn illgresi og/eða skordýrum.

Heimasíða Uppspuna

Við byrjuðum í Loftslagsvænum landbúnaði 2022 þar sem við töldum að þær aðferðir sem við ástundum í okkar búskap ættu heima undir þeim hatti. Við teljum svo ennþá vera en auðgandi landbúnaður horfir til bættra loftslagsaðgerða með sínum aðferðum. Loftslagsvænn landbúnaður hefur hjálpað okkur að hafa yfirsýn yfir verkefnin og setja þau niður á blað.

Helstu loftlagsaðgerðir

Í nokkur ár höfum við reynt að byggja upp fleiri skjólbelti á bújörð okkar og gerðum við grunn að einu nokkuð stóru sumarið 2023.

Við hættum alveg að nota tilbúinn áburð sumarið 2023 og notum í staðinn moltu sem við gerum sjálf, hænsnaskít og kjötmjöl ásamt því að með markvissri beitarstýringu dreifist búfjáráburðurinn jafnt um haga og tún - beint úr skepnunum. Við höfum dregið verulega úr olíunotkun, þar sem heyöflun okkar hefur minnkað, en kýrnar sjá sjálfar um að bíta grasið á velli, en við sláum það ekki og hirðum og keyrum því til þeirra. Þetta leiðir til þess að plastnotkun er mun minni en áður og olíunotkun og traktorsskak við heyannir og gjafir hafa sömuleiðis minnkað.

Við erum stolt af öllum aðgerðum okkar sem hafa leitt okkur í þessa átt og munum halda áfram á þeirri vegferð. Við erum enn að læra og gera mistök en stefnum uppávið.