Fara í efni
Yellow Blue Green

Svartárkot

Guðrún Tryggvadóttir, Hlini Gíslason, Sigurlína Tryggvadóttir & Magnús Skarphéðinsson
Sauðfjárrækt

Loftlagsvænn landbúnaður

þátttökubú í loftlagsvænum landbúnaði

Svartárkot

Hvað hefur loftslagsvænn landbúnaður gert fyrir okkur?

Svartárkot, Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu

Svartárkot hefur verið rekið af fjölskyldunni frá því 1946, með tilheyrandi ættliðaskiptum. Í upphafi var hérna blandað bú en með tankvæðingu í mjólkurframleiðslu var mjólkurframleiðslu hætt. Síðan þá hefur búið verið rekið sem sauðfjárbú. Svartárkot stendur í 400 m hæð yfir sjávarmáli og áskoranir í landbúnaði því talsverðar bæði tengdar möguleikum til endurræktunar og jarðvegseyðingu. Síðastliðna áratugi hefur búskapur því þróast með annarri starfsemi og hér er búin að vera lítil matvælavinnsla frá 2011. Verið er að stækka hana og þróa matvælaframleiðsluna enn frekar samhliða því. Einnig hafa ábúendur síðastliðin 19 ár unnið að uppbyggingu menntatengdrar ferðaþjónustu og nú síðast unnið að stofnun seturs á sviði náttúru og umhverfishugvísinda í sveitarfélaginu í samstarfi við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands og fleiri.

 

Við byrjuðum í Loftslagsvænum landbúnaði strax í upphafi verkefnisins og höfum verið þátttakendur síðan. Með þátttöku í LOL var það kannski fyrst og fremst hugsunarháttur okkar gangvart ýmsum framkvæmdaliðum sem breyttist og aukin sjálfbærnihugsun varð sjálfsagðari. Það er einhvern veginn alltaf verið að reyna að hafa það að leiðarljósi að aðgerðir og framkvæmdir séu unnar á sem sjálfbærastan og bestan hátt.  

Helstu loftlagsaðgerðir

Við framleiðum okkar eigið rafmagn og keyrum nú að miklu leyti á rafbílum á okkar eigin orku. Það er kannski stærsta einstaka aðgerðin sem hefur dregið verulega úr notkun eldsneytis. Við höfum aukið enn frekar uppgræðslu lands ásamt því að vera að gera tilraunir með skógrækt. Við erum einnig í ferli með að gera búið sjálfbærara gagnvart eigin matvælaframleiðslu með byggingu nýs tilraunagróðurhúss sem nýtir jarðrafhlöðu (jarðbatterí) og haughita til upphitunar en byggingu þess er ekki alveg lokið svo það verður virkilega spennandi að sjá hverju það skilar.