- Við höfum tekið til aðgerða sem felast í því að nýta betur búfjáráburðinn sem fellur til á búinu með kaupum á niðurlagningarbúnaði aftan á haugsugu ásamt því að bera allan hálmskít í flög við ræktun. Þetta getur sparað okkur í kaupum á tilbúnum áburði og bætt jarðveg.
- Með því að fá kvígurnar til þess að bera fyrsta kálfi fyrr fáum við minna kolefnisspor á hvern grip, til að ná því höfum við gripið til bætts aðbúnaðar fyrir kálfa og uppeldi, þar má nefna frjálst aðgengi að mjólk til 10-12 vikna og hálmstíu fyrir kálfa að 6 mánaða aldri. Einnig hefur beiðslisgreinir verið settur upp til að ná markvissari sæðingum á kvígum.
- Ræktun á niturbindandi jurtum er eitt sem við höfum tileinkað okkur í loftslagsaðgerðunum en við sáðum smára til helminga í nokkra hektara. Ef vel gengur getum við sparað okkur allt að 70kg/N á hektara í kaupum á tilbúnum áburði. Eflaust fara fleiri hektarar undir smárarækt á komandi árum.
- Með ræktun á byggi getum við sparað okkur samsvarandi magn af aðkeyptu fóðri og kolefnisspor sem því fylgir. Til þess að auka uppskeru á hvern hektara höfum við keypt sáðvél sem fellir áburð niður með sáðbygginu og nýtist áburðurinn þá betur.
Spóastaðir
Loftlagsvænn landbúnaður
þátttökubú í loftlagsvænum landbúnaði
Spóastaðir
Spóastaðir í Biskupstungum
Á bænum eru um 90 mjólkandi kýr í tveggja róbóta fjósi sem var tekið í notkun 2019. Í nýja fjósinu er pláss fyrir 140 gripi auk smákálfa en allt uppeldi fer fram í gamla fjósinu. Ræktaða landið er um 130 hektarar auk 100 hektara af skógi. Kornrækt á búinu er á 12-15 hekturum árlega og af nokkrum hekturum eru seldar túnþökur á hverju ári.
Hvað hefur loftslagsvænn landbúnaður gert fyrir okkur?
Við byrjuðum í loftslagsvænum landbúnaði 2022 og höfum síðan þá tileinkað okkur loftslagsvænni búskaparhætti sem oftar en ekki eru bara góðir búskaparhættir. Loftslagsvænn landbúnaður hefur því ekki einungis sparað okkur í kolefnisbókhaldinu heldur einnig með því að efla reksturinn. Regluleg fræðsla um loftslagsmál í landbúnaði hefur haldið okkur á tánum í aðgerðum á okkar búi.