Fara í efni
Yellow Blue Green

Langamýri

Kjartan Ágústsson
Sauðfjárrækt

Loftlagsvænn landbúnaður

þátttökubú í loftlagsvænum landbúnaði

Langamýri

Hvað hefur loftslagsvænn landbúnaður gert fyrir okkur?

Langamýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Ég hef búið hér alla mína tíð. Tók við af foreldrum mínum og hef stundað sauðfjárbúskap og rabarbaraframleiðslu. Ennfremur eru nokkur hross á jörðinni, einkum frá fjölskyldunni. Einnig hef ég stundað kennslu meðfram búskap. Jörðin er lífrænt vottuð og hefur verið í allmörg ár.

Ég ákvað að taka þátt í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði vegna þess að ég hef ákveðnar áhyggjur af loftslagsmálum og taldi að með auknum fróðleik og bættri yfirsýn í búskapnum gæti ég m.a. minnkað kolefnisspor. Ég er margs vísari og held ótrauður áfram að draga úr kolefnislosun og stuðla að betra umhverfi. Með því að nota ekki tilbúinn áburð minnka ég kolefnispor og einnig með því að efla þá skógrækt sem fyrir er.

Helstu loftlagsaðgerðir

Ég er að draga úr olíunotkun dráttarvéla og ætla að prófa að nota repjuolíu á aðra vélina. Með því að fækka fénu og auka afurðir eftir hverja á næ ég einnig að minnka kolefnisspor. Ég mun halda áfram að vera með jörðina lífrænt vottaða en það hefur góð áhrif á jarðveginn og annað umhverfi. Þó er sá hængur á að spretta er minni og haustbeit er ekki í sama magni og þar sem tilbúinn áburður er notaður. Afurðir munu því verða minni eftir hvern grip en ella. Með kölkun túna og bætri nýtingu sauðataðs má auka uppskeru og auka gæði uppskerunnar.

Þá þarf ég að leggja meiri rækt við að bæta trjáræktina sem er á býlinu. Með þátttöku í verkefninu er ég betur meðvitaður um hvar má bæta og hvar ég er að gera góða hluti.