Fara í efni
Yellow Blue Green

Keldudalur

Guðrún Lárusdóttir & Þórarinn Leifsson
Sauðfjárrækt Nautgriparækt

Loftlagsvænn landbúnaður

þátttökubú í loftlagsvænum landbúnaði

Keldudalur

Hvað hefur loftslagsvænn landbúnaður gert fyrir okkur?

Keldudalur í Hegranesi í Skagafirði

Í Keldudal eru um 70 mjólkurkýr og 100 aðrir nautgripir. Nautkálfar undan mjólkurkúm eru aldir til slátrunar. Á búinu eru 80 kindur, 14 geitur, nokkur hross, íslenskir fjárhundar og hænur til heimilis. Guðrún og Þórarinn hafa rekið ferðaþjónusta frá árinu 2002, leigð eru út 2 hús.

Við sóttum um aðild að Loftlagsvænum landbúnaði til að kynna okkur verkefni sem unnt er að vinna að til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni á okkar bújörð. Við teljum að þær aðgerðir sem við höfum unnið að í tenglum við verkefnið bæti samhliða rekstur búsins og afkomu.

Helstu loftlagsaðgerðir

Þau verkefni sem við höfum ráðist í eru m.a. að minnka notkun á dísilolíu með því að nota rafmagnshrærur til að hræra upp í haughúsi og til að dæla mykju úr haughúsi í geymslutank.

Stefnt er að því að auka afurðir eftir hverja mjólkurkú með bættum aðbúnaði, markvissari fóðrun og bættri mjaltatækni. Með byggingu nýs fjóss hefur innfluttur undirburður í bása verið minnkaður um 70%.

Við höfum haldið áfram markvissri kölkun á ræktunarjarðvegi en markmið er að allur ræktunarjarðvegur verði með sýrustig (pH) 6,2-7 til að hámarka nýtingu búfjáráburðar og tilbúins áburðar. Við endurræktun túna hefur bæði hvít- og rauðsmára verið ísáð í tún á öðru ári. Einungis er plægt að vori og þess gætt að flögum sé lokað eins fljótt og hægt er með því að taka viðráðanlegar spildur fyrir í hvert sinn. Grasfræi er ávallt sáð með hraðvaxta skjólsáði sem lokar sverðinum hratt til að koma í veg fyrir jarðvegsfok. Markmiðið er að hámarka nýtingu búfjáráburðar. Á hverju ári er stefnt að því að 70% af búfjáráburðinum sé borinn á í maí og restin milli slátta í júlí. Þess er gætt að þurrefni mykjunnar sé um 4% og borið er á með niðurlagningu til að hámarka nýtingu á köfnunarefni. Allur tilbúinn áburður er borinn á með GPS-hnitum til að dreifing sé sem jöfnust.

Unnið hefur verið markvisst að því að loka framræsluskurðum í túnum og setja drenbarka í staðinn. Þessi aðgerð stækkar ræktunarspildur sem leiðir til minni olíunotkunar véla, dregur úr rofi í skurðum, minnkar afrennsli, bætir nýtingu á áburði og eykur uppskeru.

Byrjað er að grisja og kvista 30 ára gamlan skógarreit sem er að mestu vaxinn lerki. Markmiðið er að þessi reitur verði beitarskógur með grónum skógarbotni sem bindi kolefni auk þess að vera gott skjól fyrir skepnur. Í framhaldinu er stefnt er að því komu upp litlum skógarreitum inni í ræktunarlandinu á blettum sem ekki hafa verið ræktaðir vegna klappa og grunns jarðvegs.