Fara í efni
Yellow Blue Green

Hríshóll

Helga Berglind Hreinsdóttir & Guðmundur Óskarsson
Nautgriparækt

Loftlagsvænn landbúnaður

þátttökubú í loftlagsvænum landbúnaði

Hríshóll

Hvað hefur loftslagsvænn landbúnaður gert fyrir okkur?

Hríshóll Eyjafjarðarsveit

Árið 1961 keyptu Hreinn Kristjánsson og Erna Sigurgeirsdóttir jörðina Fjósakot en þegar nýtt íbúðarhús var byggt var nafninu breytt í Hríshól. Haustið 1935 féllu miklar skriður úr Möðruvallafjalli ofan Fjósakots en klofnuðu á Hríshólnum sem þannig bjargaði bænum og þótti því við hæfi að nefna bæinn eftir honum.

Árið 1981 komu Sigurgeir Bjarni, sonur Ernu og Hreins og kona hans Bylgja Sveinbjörnsdóttir inn í búreksturinn og tóku svo alfarið við árið 1997. Sonur þeirra Elmar og hans kona, Sunna Axelsdóttir, bjuggu svo á Hríshóli frá árinu 2008 með Sigurgeir og Bylgju. Það var svo árið 2013 sem núverandi eigendur tóku við búinu en það eru Helga Berglind Hreinsdóttir, dóttir Ernu og Hreins og systir Sigurgeirs og hennar maður Guðmundur S. Óskarsson. Sonur þeirra, Ingvi hefur alltaf verið mikill áhugamaður um landbúnað og búfjárræktun almennt og lauk búfræðinámi sínu árið 2019. Hann og sambýliskona hans taka nú fullan þátt í rekstri búsins.

Árið 2014 var jörðin Möðruvellir, sem er næsti bær norðan við Hríshól, keypt. Það er sögufræg jörð en þar bjó Guðmundur ríki Eyjólfsson (d. 1025) á 10. og 11. öld. Hann var mikill höfðingi og goðorðsmaður og kemur fyrir í Ljósvetningasögu ásamt ýmsum öðrum Íslendingasögum. Á Möðruvöllum er bændakirkja með afar merkilegri altaristöflu úr alabastri frá 15. öld og klukknaporti frá árinu 1781.

Í upphafi búrekstrar núverandi eigenda á Hríshóli voru um 60 kýr, aðrir nautgripir um 80 og 100 kindur. Á Hríshóli er lausagöngufjós með róbót og 68 legubásum byggt árið 2003 og fjárhús fyrir um 100 fjár, einnig hlaða og vélaskemma. Þegar Möðruvellir voru keyptir, án allra véla og bústofns, hófst stækkun búsins fyrir alvöru og smám saman hefur bústofninn stækkað. Á Möðruvöllum er 58 bása fjós og fjárhús fyrir um 350 fjár, bæði fullnýtt í dag. Farið hefur verið í ýmsar framkvæmdir á báðum stöðum til hagræðingar, vinnusparnaðar og bætingar fyrir búfénað.

Á Hríshóli er blandað bú þar sem nautgripir eru alls um 300, þar af mjólkurkýr um 120, holdakýr 15 og sauðfé 360. Einnig nokkrir hestar, fjórir hundar og tveir kettir.

Með því að taka þátt í þessu verkefni, loftlagsvænn landbúnaður, hafa opnast tækifæri fyrir heilmikla fræðslu, bæði í formi fyrirlestra og spjalls við aðra bændur í sömu stöðu. Það að vera þátttakandi heldur fólki stöðugt við efnið og vekur til umhugsunar hvernig er hægt að gera betur í því sem gert er. 

Helstu loftlagsaðgerðir

Hríshólsbúið kom inn í þetta verkefni sumarið 2021 þannig að þegar þetta er skrifað er liðið um eitt og hálft ár frá upphafi verkefnisins. Það hefur lengi verið heyjað í stæður, bæði með steyptum veggjum og á sandplani sem minnkar plastnotkun verulega miðað við að heyja í rúllur og þannig sparast orka og plastefni sem annars hefði farið í framleiðslu rúlluplasts. Það er einnig minni olíueyðsla við að keyra hey heim með þessari aðferð. Með þessu móti fæst úrvals hey sem eykur afurðir og skepnur fá eins hey í langan tíma en sífelldar fóðurbreytingar (hey úr mismunandi rúllum af mismunandi túnum) fara oft ekki vel í skepnur. Aukið hefur verið við þessa tegund fóðuröflunar og rúllum fækkað að sama skapi. 

Búið er að kaupa nýja haugsugu með slöngudreifibúnaði sem nýtir mykju betur þannig að það er ekki þörf á jafn miklum tilbúnum áburði. Framtíðarmarkmið er að auka hauggeymslupláss til að nýta húsdýraáburð enn frekar. Einnig hefur verið fenginn verktaki í áburðardreifingu sem er með nýjan og fullkominn gps búnað og þannig lendir áburðurinn þar sem hann á að lenda, ekki í skurðum eða köntum og nýtist þar af leiðandi betur.

Auknar afurðir pr. grip, kú eða á, skila sér í minna kolefnisspori og það er eitthvað sem alltaf er unnið að á búinu, ræktunarstarf sem skilar betri og betri mjólkurkúm og fangi á réttum tíma. Í ársbyrjun 2024 var settur upp beiðslisgreiningarbúnaður við róbótinn sem á að stuðla að sæðingu á réttum tíma. Miklar vonir eru bundnar við þennan búnað en eftir að koma reynsla á hann. Í augnablikinu snúast ræktunarmarkmið sauðfjárræktar aðallega um að koma riðuverndandi genum í stofninn en að sjálfsögðu líka að auka afurðir hverrar ær. Það er að sjálfsögðu líka gert með góðu eftirliti á sauðburði og að koma í veg fyrir lambadauða.