Hríshólsbúið kom inn í þetta verkefni sumarið 2021 þannig að þegar þetta er skrifað er liðið um eitt og hálft ár frá upphafi verkefnisins. Það hefur lengi verið heyjað í stæður, bæði með steyptum veggjum og á sandplani sem minnkar plastnotkun verulega miðað við að heyja í rúllur og þannig sparast orka og plastefni sem annars hefði farið í framleiðslu rúlluplasts. Það er einnig minni olíueyðsla við að keyra hey heim með þessari aðferð. Með þessu móti fæst úrvals hey sem eykur afurðir og skepnur fá eins hey í langan tíma en sífelldar fóðurbreytingar (hey úr mismunandi rúllum af mismunandi túnum) fara oft ekki vel í skepnur. Aukið hefur verið við þessa tegund fóðuröflunar og rúllum fækkað að sama skapi.
Búið er að kaupa nýja haugsugu með slöngudreifibúnaði sem nýtir mykju betur þannig að það er ekki þörf á jafn miklum tilbúnum áburði. Framtíðarmarkmið er að auka hauggeymslupláss til að nýta húsdýraáburð enn frekar. Einnig hefur verið fenginn verktaki í áburðardreifingu sem er með nýjan og fullkominn gps búnað og þannig lendir áburðurinn þar sem hann á að lenda, ekki í skurðum eða köntum og nýtist þar af leiðandi betur.
Auknar afurðir pr. grip, kú eða á, skila sér í minna kolefnisspori og það er eitthvað sem alltaf er unnið að á búinu, ræktunarstarf sem skilar betri og betri mjólkurkúm og fangi á réttum tíma. Í ársbyrjun 2024 var settur upp beiðslisgreiningarbúnaður við róbótinn sem á að stuðla að sæðingu á réttum tíma. Miklar vonir eru bundnar við þennan búnað en eftir að koma reynsla á hann. Í augnablikinu snúast ræktunarmarkmið sauðfjárræktar aðallega um að koma riðuverndandi genum í stofninn en að sjálfsögðu líka að auka afurðir hverrar ær. Það er að sjálfsögðu líka gert með góðu eftirliti á sauðburði og að koma í veg fyrir lambadauða.