Fara í efni
Yellow Blue Green

Heiðarbær

Jóhannes Sveinbjörnsson & Ólöf Björg Einarsdóttir

Loftlagsvænn landbúnaður

þátttökubú í loftlagsvænum landbúnaði

Heiðarbær

Hvað hefur loftslagsvænn landbúnaður gert fyrir okkur?

Heiðarbær 1 í Þingvallasveit, Bláskógabyggð

Við tókum við búskapnum á Heiðarbæ 1 í ársbyrjun 1999 af foreldrum Jóa. Við erum með um 530 vetrarfóðraðar kindur, 11 hross, 2100 holdakjúklinga og veiðum silung í Þingvallavatni.

Við byrjuðum í Loftslagsvænum landbúnaði haustið 2023. Við höfum þegar haft bæði gagn og gaman af þátttökunni: námskeiðum, hádegisfyrirlestrum og ekki síst gerð aðgerðaáætlunar. Við þá vinnu voru sett ýmis markmið sem munu hafa áhrif á okkar búrekstur í framtíðinni. Sum þeirra höfðu blundað í okkur áður en nú erum við búin að setja á okkur réttu pressuna til að ná þeim.

Helstu loftlagsaðgerðir

Fyrrverandi og núverandi ábúendur á Heiðarbæ 1 hafa tekið þátt í verkefninu Bændur græða landið samfellt frá 1990. Græddir hafa verið upp melar og rofabörð á Mosfellsheiði, sem nemur á annað hundrað hekturum. Með hliðsjón af okkar aðgerðaáætlun höfum við nú í vetur skilgreint ný svæði í samvinnu við Landgræðsluna sem við hyggjumst einbeita okkur að því að græða upp á næstu árum. Við höfum einnig áform varðandi endurheimt birkiskógavistkerfa og hyggjumst hefja girðingaframkvæmdir vegna þess sumarið 2024.

Við höfum stöðugt verið að auka afurðir eftir hverja vetrarfóðraða kind með markvissum kynbótum, fóðrun og aðbúnaði og höfum sett okkur ný markmið í því efni sem mun skila okkur hagstæðara kolefnisspori á hvert kg dilkakjöts.

Ræktunarland er víðfeðmt, að mestu á nokkuð áburðarfrekum móajarðvegi. Við höfum stundað grænfóðurrækt og töluverða endurræktun. Eftir að hafa lagst sérstaklega yfir þessi mál nú í vetur sjáum við töluverð tækifæri til úrbóta á þessu sviði. Byggir það meðal annars á niðurstöðum hey- og jarðvegsefnagreininga. Við þurfum að gera átak í að hækka sýrustig ræktunarjarðvegs og tekur núverandi áburðaráætlun og áætlun um kölkun mið af þessu.

Við höfum einnig til skoðunar ýmsar úrbætur í tæknimálum sem lúta að því að bæta nýtingu orku og næringarefna. Snýr þetta meðal annars að kyndingu kjúklingahúss, innakstri á rúllum og dreifingartækni bæði búfjár- og tilbúins áburðar.