Við einsettum okkur að dagleg störf á búinu yfir vetrartímann yrðu unnin á tækjum knúnum umhverfisvænni orku og keyptum til þess rafmagnsliðlétting. Sömuleiðis höfum við keypt rafmagnshaughræru sem á að spara okkur mikla olíu við að hræra upp í haughúsum. Við reiknum með þessar aðgerðir lækki olíureikninginn um 15%.
Að auka afurðir eftir hvern grip er eitt af okkar markmiðum en með því lækkum við kolefnisspor bæði á hvern mjólkurlítra og á hvert kíló lambakjöts. Við tökum því þátt í ræktunar- og kynbótastarfi og fáum faglegar ráðleggingar og niðurstöður efnamælinga til að hjálpa okkur við ákvarðanatöku.
Unnið er að bættri nýtingu tilbúins aðkeypts áburðar og skoðað hvernig best er að flétta saman notkun tilbúins áburðar og búfjáráburðar. Jafnframt eru notaðar niturbindandi plöntur við sáningu í endurræktun. Markmiðið er að spara innkaup á tilbúnum aðkeyptum áburði.