Fara í efni
Yellow Blue Green

Glitstaðir

Guðrún Sigurjónsdóttir & Eiður Ólason
Sauðfjárrækt Nautgriparækt

Loftlagsvænn landbúnaður

þátttökubú í loftlagsvænum landbúnaði

Glitstaðir

Hvað hefur loftslagsvænn landbúnaður gert fyrir okkur?

Glitstaðir í Noðurárdal, Borgarfirði

Við hófum búskap árið 2000 og tókum þá við góðu búi foreldra Guðrúnar en sama ætt hefur verið búsett hér og unnið við búskap síðan 1927. Síðan við byrjuðum að búa höfum við tvöfaldað mjólkurframleiðsluna og erum nú með 35 mjólkandi kýr en nautgripir eru alls um 75. Sauðfjárbúskapur er svipaður og var, um 140 kindur. Við bættum síðan skógrækt og ferðaþjónustu við þegar við keyptum Svartagil, næstu jörð við okkur.

Við erum búin að vera rúm tvö ár í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði. Með þátttöku í verkefninu verður okkur enn ljósara hvað sóun er slæm fyrir umhverfið og hvað það skiptir miklu máli að nýta vel öll framleiðslutæki. Það er mjög lærdómsríkt að heyra frá og læra af öðrum í verkefninu hvað þeir eru að gera á sínum búum til að bæta sinn árangur.

Helstu loftlagsaðgerðir

Við einsettum okkur að dagleg störf á búinu yfir vetrartímann yrðu unnin á tækjum knúnum umhverfisvænni orku og keyptum til þess rafmagnsliðlétting. Sömuleiðis höfum við keypt rafmagnshaughræru sem á að spara okkur mikla olíu við að hræra upp í haughúsum. Við reiknum með þessar aðgerðir lækki olíureikninginn um 15%.

Að auka afurðir eftir hvern grip er eitt af okkar markmiðum en með því lækkum við kolefnisspor bæði á hvern mjólkurlítra og á hvert kíló lambakjöts. Við tökum því þátt í ræktunar- og kynbótastarfi og fáum faglegar ráðleggingar og niðurstöður efnamælinga til að hjálpa okkur við ákvarðanatöku.

Unnið er að bættri nýtingu tilbúins aðkeypts áburðar og skoðað hvernig best er að flétta saman notkun tilbúins áburðar og búfjáráburðar. Jafnframt eru notaðar niturbindandi plöntur við sáningu í endurræktun. Markmiðið er að spara innkaup á tilbúnum aðkeyptum áburði.

Kýrin Krúna

Á einni af myndunum hér fyrir ofan er mynd af rauðskjöldóttri kýr, kýrin Krúna. Það var tekið naut, sem hét Tékki, undan henni á Nautastöð. Á degi mjólkurinnar birti Guðrún mynd af henni á facebook síðunni sinni og fékk þá meðfylgjandi vísu senda frá Ara Ingólfssyni.

Dagur mjólkur færir mér
Minningu um kúnna
Kunnuleag jórtrar hér
eðalkýrin Krúna.

Á Glitstöðum hún unir við.
Það er hennar Mekka.
Launað fékk hún atlætið
með einum vænum Tékka.