Fara í efni
Yellow Blue Green

Fellshlíð

Elín Margrét Stefánsdóttir & Ævar Hreinsson
Nautgriparækt

Loftlagsvænn landbúnaður

þátttökubú í loftlagsvænum landbúnaði

Fellshlíð

Hvað hefur loftslagsvænn landbúnaður gert fyrir okkur?

Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit

Við keyptum jörðina 2002, þá voru hér um 28 kýr sem voru mjólkaðar á básum, 30 kindur og nokkrar hænur. Við höfum smám saman verið að breyta búskapnum, kaupa kvóta og byggja upp. Við áttum hesta sem við tókum með okkur, hættum fljótlega með hænurnar og hættum með kindurnar 2012 eftir að hafa breytt fjárhúsinu í hesthús. Árið 2015 breyttum við fjósinu í lausagöngu og keyptum mjaltaþjón. Í dag erum við með um 80 mjólkandi kýr og tvo mjaltaþjóna.

 

Við viljum nýta okkur allar leiðir sem hægt er til að gera reksturinn hjá okkur eins hagkvæman og umhverfisvænan og hægt er. Með það að leiðarljósi ákváðum við að taka þátt í þessu verkefni til að læra sem mest um það hvernig er hægt að gera betur. Að öllum ólöstuðum þá hefur okkur fundist jafningjafræðslan sem verður í svona hópverkefni hafa nýst okkur best.

Helstu loftlagsaðgerðir

  • Helstu markmið okkar við þátttöku var að draga úr losun á kolefni með því að minnka notkun á tilbúnum áburði, með því að hámarka nýtingu búfjáráburðar og annarra lífrænna efna s.s. moltu, ásamt því að auka hlutfall niturbindandi jurta í túnum og kalka tún þar sem við á.
  • Eitt af markmiðunum var einnig að auka afurðir eftir hvern grip og auka bindingu kolefnis á búinu. Það sem við höfum gert er að við höfum keypt rafmagnsliðlétting til að nota í gjafir og ýmsa aðra snúninga sem sparar mikið notkun á dráttarvél.
  • Við höfum keyrt þó nokkru af moltu í flög og kalkað þar sem hefur þurft.
  • Núna þessa dagana erum við að setja niður mykjulón sem verður gjörbylting á nýtingu á búfjáráburði þar sem haughúsplássið hjá okkur var alltof lítið og við höfum þurft að keyra út oft yfir veturinn.
  • Þá höfum við notað í meira mæli niðurfellingarbúnað við dreifingu á búfjáráburði.
  • Einnig höfum við skipulagt skógrækt á 13 hektara svæði og erum byrjuð að planta þar ásamt því að planta skjólbeltum meðfram túnum og sumarið 2023 heyjuðum við í fyrsta skipti í stæður og vonumst til að við getum með því dregið úr plastkostnaði.