Fara í efni
Yellow Blue Green

Bessastaðir

Guðný Helga Björnsdóttir & Jóhann Birgir Magnússon
Nautgriparækt

Loftlagsvænn landbúnaður

þátttökubú í loftlagsvænum landbúnaði

Bessastaðir

Hvað hefur loftslagsvænn landbúnaður gert fyrir okkur?

Bessastaðir við Hrútafjörð

Á búinu eru um 30 árskýr sem eru að ná því að vera með yfir 8.000 lítra meðalframleiðslu á ári, en eitt af markmiðum verkefnisins var að komast yfir 8.000 lítra fyrir árslok 2023. Við seljum flesta nautkálfa til kjötframleiðenda, setjum á 2-3 á ári, sem við geldum þannig að þeir geta alist upp með kvígunum og verið úti með þeim. Kjötið af uxunum er svo selt valinkunnu fólki sem vill vita hvaðan kjötið þess kemur, og fer í kistuna okkar líka.

Við kappkostum að endurrækta túnin fyrir kýrnar, þær fá helst ekki hey af eldri túnum en 5 ára. Við höfum lagt mikla áherslu á að loka skurðum með lokræsum og stækka þannig túnin, einnig að setja skjólbelti meðfram túnunum á eina eða tvær hliðar.

Hér fæðast 3-5 folöld á ári, við ölum þau upp og temjum. Hryssurnar sem við erum komin með í ræktun eru allar frá okkur og hefur Jói tamið þær og sýnt þannig að hann veit hvar kostir og gallar eru. Þeim er haldið undir sérvalda stóðhesta og afkvæmin svo tamin með hliðsjón af því hvernig móðir og systkini hafa hagað sér á árum áður. Einnig notum við stundum stóðhesta frá okkur sjálfum, þegar þeir henta fyrir hryssurnar.Jói temur hrossin og sýnir hryssurnar í kynbótadómi og fer með þá hesta í keppni sem þar eiga heima. Hrossin eru yfirleitt seld eftir 2-4 ára tamningu.

Við hófum skógrækt árið 2001, þegar við gerðum samning við Norðurlandsskóga um 30 hektara landsvæði undir skógrækt. Við byrjuðum á mikilli skjólbeltagerð bæði við tún, beitarstykki og í skógræktarsvæðinu, fórum svo í að planta ösp, birki, greni, furu og lerki. Lerkinu gengur síst svona nálægt sjónum en öspinni líður mjög vel. Greni og fura standa sig vel en eru mjög lengi að koma sér af stað. Birkið er óttalegur aumingi hérna.

Árið 2016 keyptum við gamalt hús sem frænka Guðnýjar átti hér og breyttum því í ferðaþjónustuhús. Ferðaþjónustan gengur mjög vel og er góð viðbót í búreksturinn.

Opnað augu okkar fyrir loftslagsvænum aðgerðum og hjálpað okkur að skilja hvað er loftslagsvænt og hvað ekki. Margt í búrekstri snýr óbeint að loftslagsvænum aðgerðum, t.d. að hámarka uppskeru af túnum, ná góðum afurðum eftir hvern grip og planta trjám en þetta verkefni hefur fengið okkur til að hugsa meira í átt að loftslagsvænum aðgerðum og spá í hvað hægt er að gera til að auka hagkvæmni og umhverfisvænar aðgerðir.

Helstu loftlagsaðgerðir

Eftir að við fórum í verkefnið höfum við mikið velt fyrir okkur betri nýtingu á búfjáráburði. Hingað til hefur hann verið meira sem aukaafurð á búinu og verið frekar fyrir en hitt af því að haughúsið er ekki nógu stórt til að rúma vetrarforðann. Við höfum þurft að tæma í nóvember og svo aftur létta á húsinu í mars eða apríl og getur það verið mjög erfitt í þessum mánuðum vegna snjóa og hálku, auk þess sem skíturinn nýtist mjög illa þá. Til að bæta nýtinguna á skítnum erum við núna að byggja haugtank sem rúmar vel allan vetrarforðann. Í hann verður dælt úr haughúsinu af og til yfir veturinn og svo skíturinn borinn á að vori og á milli slátta. Með þessu verður hægt að þynna skítinn meira og bæta nýtingu hans til mikilla muna. Einnig fengum við okkur, ásamt nágranna okkar, haugsugu með niðurlagningarbúnaði til að bæta nýtinguna enn frekar. Við erum gífurlega ánægð með þá fjárfestingu.

  • Auknar afurðir hjá kúnum með því að vera með sem mest af nýræktarheyi fyrir þær og markvissara eftirlit í fjósi.
  • Planta um 5.000 trjáplöntum á ári í skógræktarsvæðið.
  • Við skiptum beitarhólfunum fyrir þjálfunarhrossin upp í smærri og fleiri hólf. Við friðum og beitum hólfin á víxl sem verður til þess að þau nýtast mun betur og minna rand verður á hrossunum.