Eftir að við fórum í verkefnið höfum við mikið velt fyrir okkur betri nýtingu á búfjáráburði. Hingað til hefur hann verið meira sem aukaafurð á búinu og verið frekar fyrir en hitt af því að haughúsið er ekki nógu stórt til að rúma vetrarforðann. Við höfum þurft að tæma í nóvember og svo aftur létta á húsinu í mars eða apríl og getur það verið mjög erfitt í þessum mánuðum vegna snjóa og hálku, auk þess sem skíturinn nýtist mjög illa þá. Til að bæta nýtinguna á skítnum erum við núna að byggja haugtank sem rúmar vel allan vetrarforðann. Í hann verður dælt úr haughúsinu af og til yfir veturinn og svo skíturinn borinn á að vori og á milli slátta. Með þessu verður hægt að þynna skítinn meira og bæta nýtingu hans til mikilla muna. Einnig fengum við okkur, ásamt nágranna okkar, haugsugu með niðurlagningarbúnaði til að bæta nýtinguna enn frekar. Við erum gífurlega ánægð með þá fjárfestingu.
- Auknar afurðir hjá kúnum með því að vera með sem mest af nýræktarheyi fyrir þær og markvissara eftirlit í fjósi.
- Planta um 5.000 trjáplöntum á ári í skógræktarsvæðið.
- Við skiptum beitarhólfunum fyrir þjálfunarhrossin upp í smærri og fleiri hólf. Við friðum og beitum hólfin á víxl sem verður til þess að þau nýtast mun betur og minna rand verður á hrossunum.